Jæja þá er víst komið að annarri færslu. Ég er núna búin að vera hér í 7 og hálfa viku og maður er nú að venjast öllu hérna. Hitastigið er að komast í þægilegra horf, en haustið er nú samt ekki hafið. Ég er búin að finna út hvaða daga er best að gera þvottinn, hentugast að kaupa í matinn og hvar er best að kaupa í matinn. Ekki það hagstæðasta búðin til að kaupa í matinn er svona 15 götum fyrir ofan mig sem er nú ekkert brjálaður göngutúr. En þegar að ég er komin með troðfulla poka af matvörum í sitthvora hendina er þetta nú bara full workout! Ég sver þegar ég er loksins komin heim þá held ég að hendurnar mínar munu detta af mér! En maður er líka aðeins búin að vera að prufa veitingastaðina sem er algjört æði, og smá tilbreyting frá pastanu sem er of oft í kvöldmatinn hjá mér.
Helgina 19.-21. september var nú þvílíkt brasað. Á föstudeginum vorum við að sjálfsögðu dauðþreyttar eftir tímana um daginn en við létum okkur nú samt hafa það og fórum á tælenskan veitingastað sem er svona 2 mínútur frá okkur. Við ætluðum nú ekkert að rölta eitthvað allt of mikið. En það sem að maturinn þarna var góður mm mm mmm. En í þessari ferð áttuðum við okkur á því að við förum ALDREI aftur út að borða bara með kort en ekki money cash, því að það er greinilega of erfitt fyrir bandaríkjamenn að skipta reikningum á milli manneskja. Á laugardeginum hins vegar lagði ég af stað um hádegi í Citibank til þess að opna bandarískan reikning. Ókey ég verð að viðurkenna að ég bjóst kannski við svona klukkutíma, tveim tímum í þetta. Ég labbaði út úr bankanum klukkan fimm. Og það sorglega var að það voru kannski 5 viðskiptavinir inni á þessum tíma og bankinn lokaði klukkan fjögur! En ég fékk þó þetta fína kort frá þeim ásamt lyklakippu og hlussu bolla sem ég get ekki beðið eftir að nota fyrir heitt súkkulaði þegar það byrjar að snjóa. Þegar ég kom heim hins vegar og fór að skoða þetta yndæliskort áttaði ég mig á því að hann hefur skrifað nafnið mitt vitlaust! Great fimm tímar og ég kem út sem Miss Benedktsdóttir, og ég sver maðurinn tékkaði hvort að hann hafi skrifað nafnið mitt rétt í passanum mínum svona 10 sinnum. Ekki það ég lifi þetta af, það getur hvort eð er enginn borið fram þetta "eftirnafn" hérna. Allavena á sunnudeginum vaknaði ég síðan og höfðu þá ekki stelpurnar bakað pönnukökur (amerískar þar að segja). Djöfull var þetta góður morgunmatur. Eftir það fór ég svo í mín fyrstu mótmæli hérna í stórborginni, ekki það efast stórlega um að ég fari í einhver fleiri. Þetta var semsagt The Climate March, við röltum hálfa manhattan, true story sko,og þvílík upplifun sem þetta var! Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hversu margir voru þarna en þarna var fólk með allskyns borða, væntanlega, en síðan var fólk bara með atriði inní miðri skrúðgöngu, alveg ótrúlega flott. Magnaðasta mómentið í göngunni var samt klárlega þegar við vorum í miðju times squere og það var mínútu þögn og allir með MH hnefann á lofti. Ókey það voru allavena allir með hnefa á lofti, oo þetta var magnað! En í tilefni 20 ára afmæli friends var opnað Central Perk kaffihús í Soho í mánuð og við ætluðum að sjálfsögðu að kíkja þangað. Það er ALLTAF kveikt á friends í sjónvarpinu okkar, held í alvöru að ég hef séð alla þættina tvisvar sinnum bara síðan ég kom hingað! Þannig að eftir gönguna gerðum við okkur ferð í Soho til að fara í kaffihúsið en guð minn almáttugur, röðin sem var þarna. Það var semsagt tveggja og hálfs tíma bið! Ekki séns að við nenntum að bíða eftir því, orðnar svangar og allt. En við löbbuðum allavena fram hjá ;) Samt svona tveim götum frá var einhver hátíð í Little Italy svo að við fórum þangað og fenguð okkur fyrstu pítsuna okkar síðan við komum í New York! Jejj þetta var alveg ekta mm hvað hún var góð.
Vikuna eftir var þreyta, og þó náði ég að hunskast í ræktina og alles. Ég sendi líka mitt fyrsta kort í póstinum þar sem að móðir mín varð einu árinu eldri. Eitt að því sem fer virkilega í taugarnar á mér við að búa hérna er að ég er alltaf að missa af einhverjum veislum á klakanum og þar af leiðandi fæ ég ekki ljúfenga matinn úr þeim! Föstudaginn 26.september hefði elsku afi minn orðið sjötugur, já þarna var ein veisla sem ég missti af. En ég lét það ekkert á mig fá og skellti mér á Olive Garden með tveim af stelpunum sem búa með mér. Ókey ég viðurkenni það að ég pantaði pasta (virðist vera eini maturinn sem ég borða hérna ég veit), en mmmmm þetta var himnaríki, þetta er maturinn sem mig dreymir um á næturnar!! Helgin var hins vegar rosa róleg, við vorum allar dauðþreyttar eftir vikuna og nánast sváfum og slökuðum bara á alla helgina. Virku dagarnir eru farnir að rúlla bara eins og vel smurð vél og tíminn gjörsamlega flýgur áfram hérna, verð komin heim fyrr en varir. Eitt fannst mér hins vegar magnað, ballettkennarinn minn Kozak var raddlaus einn daginn og ákvað hún að hún gæti ekkert talað. Ég er vön því heima að ef að kennararnir eru raddlausir láta þeir mann vita að þeir geti ekkert talað en enda samt alltaf á því að tala jafn mikið og venjulega. Ekki hún, hún stóð föst við orð sín og reyndi að tala táknmál allan tímann sem að mér fannst mjög fyndið því að helminginn af tímanum skildi maður ekki neitt af því sem hún var að segja.
Laugardaginn 4.október buðum við nokkrum stelpum úr skólanum heim til okkar. Þetta var ógeðslega kósý kvöld. Við pöntuðum dominos pitsur, sem að var reyndar pöntuð eitthvað vitlaust. Við keyptum tvær stórar pítsur á 40 og eitthvað dollara, keyptum seinustu helgi tvær stórar pitsur, 2 l kók og 2 ostagottathink á 20 dollara.. úpps. Allavena þetta var voða kósý kvöld með öllu tilheyrandi, pítsur, kók, snakk, ís og ekki má gleyma Mean Girls. Sunnudaginn 5.október missti ég að sjálfsögðu að annarri veislu og það með Önnukökum, ekki sátt. En í staðinn fór ég í verslunarferð með stelpunum og við fengum okkur ógeðslega gott eplapie, svo ég lifði þetta nú af.
Helgina eftir þetta var ég að leka niður af þreytu svo að ég svaf í tæpa 14 tíma bara fyrstu nóttina. Og eyddi síðan nánast restina af deginum að setja upp tölvuna mína, þar sem ég hef ekki haft tíma í að gera það hingað til. Hins vegar á sunnudagsmorgninum vaknaði ég við ryksugu. Hver í anskotanum ákveður að ryksuga klukkan tíu á morgnanna. Þetta ætti ekki að vera leyfilegt og sérstaklega ekki þegar ég er sofandi (á ennþá eftir að komast að því hver þetta var)!! Mánudaginn 13.október var Columbus day og við fengum frí í skólanum. Skemmtileg staðreynd hér á ferð en þessa helgi var kanadíska þakkargjörðahátíðin. Svo að við fórum og pöntuðum okkur "thanksgiving" mat á þessum mánudegi. Reyndar fékk ég mér bara hamborgara og fröllur og hinar fengu sér eitthvað svipað, en þetta var allavena þakkargjörðamáltíðin okkar. Á þriðjudeginum eftir skóla röltuðum við að finna tennisbolta, já við áttum að kaupa okkur tennis bolta fyrir body conditioning tíma og það er erfiðara að finna þá en maður heldur! Við röltuðum svona 20 götur og nokkur avenue áður en við fundum venjulega íþróttabúð með tennisboltum, við búum greinilega ekki á íþróttasvæðinu. Um kvöldið var pítsugerð hér á heimavistinni sem við að sjálfsögðu mættum í, því að jú við elskum mat! Þetta var reyndar frekar fyndið. Við komum þarna og það var tilbúið deig sem maður tók og rúllaði út og síðan skellti maður bara því sem að maður vildi á. Neinei síðan sagði pían sem að sá um þetta á hvað maður ætti að stilla ofninn til að baka hana og sendi okkur svo heim. Þetta tók alveg heilar tíu mínútur en hey ég fékk fríann kvöldmat ;)
Núna á föstudaginn skellti ég mér að kaupa fyrst kínverska matinn minn hér. Og saklausi íslendingurinn ég sem vildi bara venjulegar djúpsteiktarrækjur, fékk eitthvað hlussustórt stykki af einhverju sem líktist frekar humari heldur en rækju! Þetta var samt alveg allt í lagi en ég verð klárlega að finna út úr hvernig ég panta eðlilegar rækjur hérna eða hvort að það sé bara eitthvað íslenskt-kínverskt thing.
Það sem fer hins vegar virkilega í taugarnar á mér við enskuna er að það er ekki til orð fyrir að nenna, og já ég hef nokkrum sinnum sagt I don't nenn, maður verður nú að redda sér. Einnig það sem fer í taugarnar á mér er að það eru ekki klósettsetulok á klósettunum hérna! Einn daginn mun ég annað hvort missa símann minn ofan í klósettið eða tannburstann minn, það er bókað mál! Ég hef mikið verið að fá þá spurningu hvort að ég hafi séð rottur út um allt eins og hún Unnur Eggerts nágranni minn, en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð eina einustu rottu hérna, hef eiginlega bara áhyggjur af því hvar hún sé að hanga. En annars er lífið bara indælt og ég er alveg tilbúin að haustið komi! Sakna ykkar allra ótrúlega, en það er nú minna en 9 vikur í að ég komi heim!
Ástarkveðjur, Elísa.