Friday, September 19, 2014

Fyrstu þrjár vikurnar

Jæja þá hef ég látið undan hópþrýstingi og stofnað blogg til þess að allir viti nú hvað sé að gerast í lífi mínu á meðan ég bý hérna í stórborginni. 
 Ég trúi nú ekki að í dag séu komnar heilar 3 vikur (og einn dagur) síðan ég kom hingað!
Ég flaug út fimmtudaginn 28. ágúst úr kuldanum, vel undirbúin í kápu og þykkri peysu og ég veit ekki hvað og hvað. Ég naut þess að drekka seinustu kókómjólkina
mína á flugvellinum til jóla (eitt af því sem ég sakna mest þessa stundina). Það gleymdi hins vegar einhver að segja mér að veðrið hérna í New York er ekki eins
og á Íslandi! Þegar ég lenti var sirka 30° hiti og ég kappaklædd. Eins og flestir vita þá fékk ég húsnæði heilum tveim sólarhringum áður en lagt var af stað. 
Ég sem sagt endaði á heimavist hjá Fordham University en ég fékk ekki herbergið þar fyrr en á sunnudeginum svo að ég gisti á Wellington hótel þangað til. Á þeim
dögum var bara slakað á og stússast fyrir veturinn. Ég keypti mér m.a. tölvu og fékk mér bandarískt símanúmer. Það er kannski vitað að fjölskyldan mín er ekki sú
hljóðlegasta í heimi, svo mér fannst mjög indælt að liggja uppí rúmi á hótelherbergi og horfa á sjónvarpið. Ég er búin að komast að því að það eru til sjónvarpsþættir
hérna með öllum anskotanum og ég held að eftir þessa hótelgistingu sé ég búin að sjá flesta þeirra. Á þessum dögum fór ég einnig einu McDonalds ferðina sem ég hef 
farið í á þessum 3 vikum. Í þeirri ferð áttaði ég mig á að ég væri í bandaríkjunum þegar ég bað um borgara, franskar og kók og afgreiðslukonan tilkynnti mér að það 
væri ódýrara að fá sér 2 borgara. Ég er ennþá sjokkeruð á þessu enda endaði þessi borgari í ruslinu...
Sunnudaginn 31. ágúst leið mér eins og ég væri í bíómynd! Það var dagurinn sem ég flutti inná heimavistina. Ég klöngraðist með 3 ferðatöskur frá hótelinu og að heimavistinni.
Heimavistin eru 6 manna íbúðir, eða íbúð með 3 tveggja manna herbergjum, 2 klósettum, eldhúsi og stofu. Þegar ég opnaði hurðina á íbúðinni sem ég bý í hoppaði ljóshærð
stelpa á móti sér og heilsaði sér og síðan kom önnur á eftir henni. Ég fór að troða töskunum inn í herbergið mitt og þá tók ég eftir að þær voru allar með foreldra
sína með sér og sumar með systkini. Þetta var eins og í bíómynd, þær höfðu keyrt hingað með fullan bíl af herberginu sínu með alla fjölskylduna og nú voru þau að setja
upp herbergið. Ég var með sæng og kodda með mér, og nottlega fötin mín. Eftir stutta stund voru allir með fulla veggi af myndum, full rúm af koddum, mottur á gólfum
og full herbergi að hlutum og ein mætti meira að segja með sjónvarp, sem hefur reyndar komið að góðum notum fyrir alla :) Mitt herbergi var eins og á spítala. Bara 
föt og rúm. En ég skellti mér nú bara útí búð og nú er herbergið mitt orðið aðeins heimilislegra. Við erum semsagt bara 5 í íbúðinni og ég er svo heppin að fá 
einkaherbergið :) Stelpurnar sem búa með mér eru með mér í dansinum (við erum eina íbúðin sem er ekki í Fordham). Þær eru mjög fínar og okkur kemur nú bara mjög vel 
saman en þær eru hins vegar allar frá Kanada sem að mér finnst voða fyndið því að þær eru búnar að troða kanada merki á ískápinn og s.frv.
3. september byrjaði skólinn, eða þá voru placement classes þar sem allir eru settir í hópa eftir getustigi og einnig var skipulagt stundatöfluna. Þetta gekk nú bara
vel hjá mér, ég er allavena sátt með hvaða tíma ég fékk. Daginn eftir var haldinn fundur fyrir international nemendurnar, þar sem var aðallega verið að hamra á því
að við mættum ekki vinna hérna og að við yrðum að fá skriflegt leyfi til þess að fara heim í fríunum. Við fengum líka stundatöflurnar í hendurnar þennan dag. Á
föstudeginum var svo haldinn fyrirlestur hvernig við ættum að koma í veg fyrir meiðsl og síðan var meet&greet. Þar var mjög gaman, það voru m.a. haldnir leikir til að
læra nöfnin á öllum sem að virkaði nú ekkert alltof vel þar sem við vorum svo mörg, það var nefnilega slatti af gömlum nemendum líka mættir.
Á föstudagskvöldinu 5.september fórum við stelpurnar að skoða Times Square sem er nú must. Við báðum einhverjar tvær stelpur um að taka mynd af okkur þar en eftir hana
spurðu stelpurnar okkur hvort að við værum dansarar og við töluðum smá saman. Kom það þá í ljós að þær eru líka í New York í dansnámi og að þær eru líka frá Kanada,
þetta var rosalega skemmtilega tilviljun fyrir alla.. nema kannski mig þar sem ég er ekki kani. Allavena við fórum á veitingastað sem heitir Stardust og fengum okkur
fáranlega góða súkkulaðibrownie með ís og rjómi í eftirrétt. En þessi veitingastaður er nefnilega þannig að þjónarnir er fólk sem er að reyna að komast á Brodway svo
að það syngur og dansar um allan staðinn. Þetta var fáranleg upplifun og minnti mig enn og aftur á bíómynd þar sem að ég fékk að heyra öll bestu lögin með Abba, úr
Grease og ég veit ekki hvað og hvað. Þar sem allir voru orðnir þreyttir í tánum ákváðum við að taka subwayinn heim, og var það fyrsta subway ferðin af mörgum hérna.
Á sunnudeginum gerðum við okkur svo ferð í Soho, sem er verslunarhverfi hérna. Það var kannski ekki mikið keypt þar sem við erum fátækir námsmenn og það spilaði smá
inní að þarna eru dýrustu búðirnar í borginni.
Mánudaginn 8.september byrjaði svo skólinn fyrir alvöru. Ef ég ætti að lýsa fyrstu vikunni er það bara harðsperrur og þreyta!! Ég kynntist einhverjum krökkum sem ég
er með í tímum en það magnaðasta finnst mér að það séu bara þrír bandarískir kennarar að kenna mér. Ég er nefnilega með þrjá spænska kennara, einn ballettkennarinn
minn sem er spænskur byrjar í miðjum tímum að tala spænsku þar sem að helmingur nemendana í þeim tímum eru einnig spænskir, hann hlýtur að hætta 
þessu einhvern tíma
eða að ég læri bara spænsku. En síðan er einn afríkani að kenna mér og síðan einn dani, kennararnir hérna koma sko alls staðar að!
Seinustu helgi var sko ekkert slakað á, ég var bókstaflega á hlaupum!! Klukkan sex um morgun á laugardeginum hafði ein af stelpunum sem búa með mér farið í Central
Park að bíða eftir miðum á danssýningu sem átti að halda þar um kvöldið á útisviði en þeir voru afhentir klukkan tólf. Hún kom sæl heim um hádegið með tvo miða í 
hendinni. Hún ákvað að bjóða mér með sér á þessa sýningu sem átti að hefjast klukkan átta. Hinar þrjár sem að búa með okkur ásamt einni annarri voru búnar að kaupa
sér miða á Lísu í Undralandi sem að Kanadíski ballettinn var að sýna svo að þær þekktu slatta af liðinu sem var að sýna þar en sú sýning átti líka að byrja átta. Við
tvær lögðum af stað klukkan sjö því að það er sirka hálftíma labb í Central Park. Þegar þangað var komið var sagt okkur að það hafi verið frestað sýningunni vegna
rigningar, sem var alveg týpísk því þetta er eini rigningardagurinn sem er búin að vera síðan ég kom hingað, sýningin yrði sýnd daginn eftir og við urðum að koma aftur
daginn eftir og bíða í röðinni til þess að ná miða!! Við löbbuðum voða vonsviknar í burtu en ákváðum að hringja í hinar stelpurnar. Þær sögðu okkur að ein stelpnanna
væri hætt við að koma svo að þær voru með auka miða á sýninguna. Þar sem að stelpan sem var með mér var nú þegar búin að sjá sýninguna fékk ég þennan lausa miða. 
Ég hélt ég myndi deyja á leiðinni. Ballettinn var sýndur við hliðina á heimavistinni okkar. Svo að við hlupum eins og brjálaðingar þvert yfir Manhattan á háum hælum.
Við komum að leikhúsinu 5 mínútur í að sýningin átti að hefjast, það var ekkert að hjálpa mér allar tröppurnar sem þurfti að klífa til að komast að sætinu. Enda var
ég alveg að kafna þegar ég settist niður, og ekki hefði ég viljað vera manneskjan sem sat við hliðiná mér eftir öll þessi hlaup! En ég náði þó á tíma og það var
magnað að horfa á þennan ballett, ég hefði ekki viljað missa af því! Við ætluðum samt ekki að láta þessa sex klukkutíma sem að greyið stelpan beið í röð verða sóun.
Svo að við vöknuðum klukkan sex á sunnudeginum til þess að bíða í röð fyrir miðum. Við fórum þrjár saman og hver fékk tvo miða svo að við fengum miða fyrir okkur allar.
Í þetta skiptið áttaði ég mig ekki á því að það gæti verið kaldara á morgnanna og þar að auki að manni verður ískalt að sitja og bíða. Ég beið í kalda sex tíma en
það batnaði þó þegar sólin fór að skína á mann klukkan svona ellefu. Það voru bara tveir á undan okkur svo að við fengum sæti á besta stað og hefðum þess vegna getað
snert dansarana. Þessi sýning var mjög góð og sýndi nútímaballett, nútímadans og svona hiphop/krump, sem var mjög upplífgandi þegar að það var hljómsveit að spila undir
og þeir meira að segja stóðu upp með hljóðfærin og byrjuðu að dansa.
Heimavistin er nú bara mjög fín. Það tekur okkur svona 5 mínútur að labba í skólann svo að það er mjööög þægilegt að geta hlaupið heim í pásunum, þá þarf nefnilega
ekki að pakka nestinu ;) Hins vegar er eitt alveg óþolandi hérna. Því að þetta eru jú bandaríkin þarf að vera með svona ID frá skólanum til þess að stimpla sig inn
þegar maður kemur og fer. Þar sem að við erum ekki frá Fordham erum við ekki ennþá komnar með þetta og þurfum í hvert skipti sem við komum að stoppa hjá öryggisverðinum
og kynna okkur, það kemur fyrir að þeir þurfi að leita af nöfnunum okkar í einhverjum pappírum og eitthvað. Sumir eru hins vegar byrjaðir að þekkja okkur sem er mjög
þægilegt, því að þá þurfum við ekki að eyða 5 mínútum í að gefa skýrslu! Einnig út af þessu fengum við ekki netaðgang fyrr en fyrir svona viku.. En nú er maður alla
virka daga dansandi allan daginn svo maður hefur varla orku til að elda (já pasta er uppáhaldsvinur minn þessa dagana). Við erum líka búnar að finna út úr ýmsu síðan
við komum hingað, hvar er ódýrast að versla í matinn, hvaða tegund af núðlum á EKKI að kaupa (hef aldrei borðað svona slæmar núðlur á lífsleiðinni!) og hvar allt er
í kringum okkur og mikilvægast af öllu, hvaða appelsínusafi er bestur. Reyndar fyrsta skiptið sem við fórum að versla í matinn var labor day.. Ég vissi nú bara varla
að það væri til, þannig að það var alveg BRJÁlAÐ að gera í búðinni því að sjálfsögðu verslar enginn fyrir frídaga! En sem betur fer fyrir mig er nú veðrið byrjað að
batna, nú er ekki lengur 30° stiga hiti það er 20° hiti, bráðum get ég byrjað að nota allar peysurnar mínar!!
En ég ætla nú ekkert að hafa þetta lengra að þessu sinni! Að sjálfsögðu sakna ég ykkrar allra, en það eru nú bara stutt til jóla ;)
Ástarkveðjur, Elísa.